Geymsla á brauðum.
Mörgum þykir lítið varið í brauð þegar þau eru orðin 2-3 daga gömul en það er ýmislegt hægt að gera til að auka geymsluþol brauða. Og það fer mun betur í maga að borða "þroskuð" brauð en alveg nýbökuð, sérstaklega brauð úr heilkornamjöli.
Umbúðir: Brauð eru yfirleitt afgreidd í plastpokum til að koma í veg fyrir að þau þorni. En það er betra að geyma brauð í umbúðum sem eru ekki alveg loftþéttar því þau þurfa að "anda". Ef þau eru í plasti er hægt að hafa pokann hálfopinn. Brauð sem eru geymd í þéttlokuðum plastpokum fá leiðinlegt bragð með tímanum og þau geta farið að mygla eftir nokkra daga, sérstaklega í hlýju umhverfi. En ef þau eru fryst eða geymd í kæli er best að hafa þau í þéttlokuðum plastpoka.
Það er gott að hafa brauð í pappírspoka og stærri plastpoka utanum sem er ekki alveg lokaður. Eða í brauðkassa og það sem er allra best í stein- eða leirkrukku.
Tegund af mjöli: Rúgbrauð og brauð með háu hlufalli af rúgmjöli halda sér lengur en brauð úr spelti eða hveiti.
Hitastig: Kjör-geymsluhitastig fyrir brauð er 12-18°C. Yfirleitt er ekki mælt með að geyma brauð í ísskáp ( þó það geti komið í veg fyrir eða hægt á myglu) því að brauð (sérstaklega hveitibrauð) þorna og fá leiðinlegt bragð við geymslu í ísskáp. Þó er ágætis reynsla að hafa t.d. glútenlausu brauðin frá okkur vel innpökkuð í ísskáp og það sama á við um rúgbrauðin.
Frysting: Brauð geymast lengi í frysti, jafnvel í nokkra mánuði, en það kemur niður á gæðum og þau þorna. Glútenlausu brauðin þorna mikið í frysti og það er betra að geyma þau í kæli ef það á að neyta þeirra innan 7 daga frá bakstri.