Lífrænt hráefni
Brauðin frá okkur eru með lífræna vottun frá Vottunarstofunni Túni og nánast eingöngu
úr lífrænt ræktuðu hráefni. Vatn og salt er þó aldrei vottað lífrænt og sömuleiðis er
engin vottun á villtum jurtum eins og hvönn og fjallagrösum, sem við notum í brauð.
Kökurnar eru ekki vottaðar, en að mestu úr lífrænt ræktuðu hráefni.
Lífrænt og gæði framleiðslunnar
Það hvernig staðið er að ræktun matjurta hefur afgerandi áhrif á gæði afurðanna. Lífrænt ræktuð matvæli eru að jafnaði næringarríkari en afurðir frá landbúnaði þar sem notaður er tilbúinn áburður og eiturefni. Niðurstöður rannsókna hvað þetta varðar eru ekki samhljóða, en þegar umfangsmiklar langtíma rannsóknir eru bornar saman þó verður útkoman ótvírætt lífrænni framleiðslu í vil.
Lífrænt og umhverfisáhrif
Það mikilvægasta varðandi lífræna ræktun eru jákvæð umhverfisáhrif.
Það er margstaðfest að einhæfur verksmiðjubúskapur hefur í för með sér einhverja alvarlegustu umhverfisógn sem að steðjar. Gríðarlega jarðvegseyðingu, sóun auðlinda, hrun vistkerfa, vatnsskort, losun gróðurhúsalofttegunda, svo eitthvað sé nefnt.
Og lausnin er þekkt. Það þarf að stuðla að landbúnaði sem byggir á blönduðum búskap, skiptiræktun og ekki of stórum býlum. Áherslan þarf að vera á að byggja upp og auka frjósemi jarðvegs.
Við eigum að velja lífrænt vegna framtíðarinnar og komandi kynslóða og til að stuðla að heilbrigði.
Lífrænt og samfélagsáhrif
Þróunin hefur lengi verið í þá átt að eignar- og umráðaréttur yfir jarðnæði hefur færst frá bændum og minni framleiðendum til eignarhaldsfélaga og fjölþjóðlegra fyrirtækja. Nú er svo komið að lítil og meðalstór býli sem eru í eigu og umsjá bænda og íbúa viðkomandi svæða ráða yfir minnihluta ræktarlands í heiminum, afgerandi meirihluti er undir yfirráðum stórfyrirtækja. Þrátt fyrir það er talið að 70 - 80 % af fæðu mannkynsins komi frá minni framleiðendum.
Minni framleiðendur sem taka upp lífræna framleiðsluhætti eru síður háðir þeim fyrirtækjum sem eru ráðandi í heiminum í sölu á fræi, áburði og eiturefnum, þeir notast frekar við aðföng frá sínu umhverfi og nærsamfélagi. Og lífræn framleiðsla í fátækari löndum er að jafnaði tengd sanngjörnum viðskiptum (fair trade) og stuðlar þannig að samfélagslegri uppbyggingu.