top of page

Saga Bakarísins í Grímsbæ

 

Lífræn súrdeigsbrauð hafa verið bökuð í Grímsbæ síðan 1990 en bakaríið verið í eigu sömu fjölskyldu síðan 1973.

Rétt fyrir bolludaginn á því ári voru fyrstu brauðin, kökurnar og rjómabollurnar bökuð í nýju bakaríi  í nýbyggðri verslunarmiðstöð, Grímsbæ við Bústaðaveg.

Það var mikið að gera frá fyrsta degi hjá Guðfinni Sigfússyni bakarameistara (1918-1997) og hans fólki.  Fossvogshverfið var í örum vexti og langt í næsta bakarí. Þá eins og nú var vandað til framleiðslunnar og enn muna margir sem ólust upp í hverfinu á þessum upphafsárum eftir bestu normalbrauðunum í bænum (að þeirra áliti), bestu snúðunum og langbeztu kókoskúlunum.

Eiginkona Guðfinns, Ingibjörg Guðmundsdóttir (1926-2006) var framkvæmdastjóri bakarísins. Þrír synir þeirra hjóna luku einnig námi í bakaraiðn og tveir þeirra, Guðmundur og Sigfús starfa enn við fagið og reka nú bakaríið.

 

Lífrænn bakstur

Vorið 1990 hóf Bakaríið í Grímsbæ að flytja inn lífrænt ræktað korn frá Saltå Kvarn í Svíþjóð. Og það var keypt lítil mylla til að fá nýmalað heilhveiti og rúgmjöl í baksturinn. Síðan var ræktað upp súrdeig úr rúgmjöli og vatni og hafist handa við að baka súrdeigsbrauð af miklum móð.

Forsagan að þessari nýjung var að Sigfús hafði búið erlendis í nokkur ár að lokni sveinsprófi, meðal annars til að kynna sér lífræn bakarí og súrdeigsbakstur. Hann vann í eitt ár í Saltå Bageri í Svíþjóð og í styttri tíma m.a. í Bageriet Aurion í Danmörku. Þessi bakarí voru frumkvöðlar í lífrænum brauðbakstri á norðurlöndum á 7. og 8. áratugnum og hafa lagt áherslu á að nota biodynamiskt (Demeter-vottað) hráefni í sína framleiðslu. Í dag kemur megnið af því korni og mjöli sem bakað er úr í Grímsbæ frá myllum sem starfa í tengslum við þessi bakarí.

Það var eins og fólk hefði beðið eftir súrdeigsbrauðunum því að um leið og farið var að bjóða uppá brauðin í Grímsbæ tóku að streyma að nýjir viðskiptavinir og margir af þeim eldri voru líka ánægðir með nýbreytnina. En þetta var hrein viðbót, það var í engu slakað á snúða- og normalbrauða-bakstrinum næstu árin.

 

Brauðhúsið í Grímsbæ

Um áramótin 1998-1999 var gerð stefnubreyting á rekstrinum, og til að undirstrika það var nafninu breytt í Brauðhúsið. Síðan þá hefur öll framleiðsla verið úr lífrænt ræktuðu hráefni* og megináherslan verið lögð á súrdeigsbrauð úr heilkornamjöli. Einnig fórum við að bjóða uppá nokkuð gott úrval af lífrænt vottaðri matvöru í versluninni.

Við sömu tímamót fórum við að baka úr speltmjöli og voru frekar lítil viðbrögð til að byrja með, en u.þ.b. ári síðar fór skriðan af stað, eftirspurnin jókst stórlega og nú eru brauð úr speltmjöli langstærsti hluti framleiðslunnar.

Brauðin hafa verið lífrænt vottuð af vottunarstofunni Túni síðan í júní 2001.

Árið 2009 létum við innrétta aðstöðu fyrir kaffiveitngar og þar eru einnig leikföng fyrir börnin.

 

* Brauðin eru lífrænt vottuð og úr lífrænu hráefni. Vatn og salt er þó aldrei vottað lífrænt og sömuleiðis er engin lífræn vottun á villtum jurtum, hvönn og fjallagrösum, sem við notum í brauð.

Kökurnar eru ekki með vottun en við notum nánast eingöngu lífrænt hráefni í þær.

bottom of page